
Sjómannadagsblaðið kom fyrst út þann 6.júní 1938 – í fyrsta sinn sem sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur – og hefur komið út árlega síðan þá. Sjómannadagsblaðið var frá upphafi hugsað sem málgagn sjómannastéttarinnar þar sem helstu baráttumál og nýjungum var komið á framfæri. Blaðið hefur í gegnum tíðina fjallað um fjölbreytt málefni sem tengjast sjávarútvegi og gefið innsýn inn í spennandi atvinnugrein. Í ár kemur Sjómannadagsblaðið út í nýjum búningi, eingöngu hér á netinu þar sem hægt er að finna greinar, myndbönd og hlaðvarpsþætti sem fjalla um sjávarútveg á margvíslegan hátt.
Breyttir tímar
„Tímarnir breytast mjög hratt og í gegnum tíðina höfum við mælt lestur Sjómannadagsblaðsins sem hefur alltaf verið gefið út í pappírsformi. Við sjáum það, eins og fleiri, að neyslumynstur heimsins hefur breyst mjög hratt með tilkomu snjalltækja,“ segir Aríel Pétursson stjórnarformaður Sjómannadagsráðs.
„Fyrir fimm árum síðan sá maður fólk á biðstofum fletta blöðum og tímaritum en nú situr fólk og skrollar í símunum sínum. Við ákváðum því að fara nýjar leiðir til að ná sömu skilaboðum til fólks með nútímalegri hætti. Þess vegna tókum við þá ákvörðun að gefa Sjómannadagsblaðið eingöngu út á rafrænu formi sem er aðgengilegt í snjalltækjum og á þeim miðlum sem fólk notar,“ segir Aríel og bætir við að það sé auðvitað áfram fjallað um stéttina með jákvæðum og uppbyggilegum hætti. „Oft er fjallað um sjávarútveg í fjölmiðlum en þá er verið að höggvast á um veiðigjöld eða kvótakerfi en þarna er gullið tækifæri að sýna almenningi jákvæðu hliðarnar á starfsemi og störfum sem tengist sjávarútvegi.“
Sjókastið kafar dýpra
Greinar og myndbönd nýja Sjómannadagsblaðsins fjalla bæði um gamla tíma og nýja en glænýtt hlaðvarp um sjávarútvegsmál kafar dýpra. „Sjókastið, sem er hlaðvarp sem Sjómannadagsráð gefur út vikulega á hverjum þriðjudegi, skoðar fjölbreytt málefni sem tengjast sjávarútvegnum. Þar fá ólíkar raddir að heyrast sem allar tengjast sjónum á einn eða annan hátt og segja frá sínum störfum og hvernig hafið hefur mótað þau. Viðtökurnar á Sjókastinu hafa nú þegar verið vonum framar og nú eru komnir út fimm þættir og strax talið á tugum þúsunda áhorfa,“ bætir Aríel við.

„Við vonum að viðtökurnar á nýju útliti Sjómannadagsblaðsins verði góðar!“

Fyrsta Sjómannadagsblaðið, gefið út 6.júní 1938.