
Sjómannadagsráð, Hrafnista og DAS íbúðir stefna á 50–60 milljarða uppbyggingu á hjúkrunarheimilum og þjónustuíbúðum til að mæta ört vaxandi hópi eldri borgara á næstu 15 árum.
Uppbyggingaráætlunin er afrakstur umfangsmikillar vinnu sem hefur verið í gangi síðastliðin tvö ár með stjórnendum og starfsfólki Hrafnistu og DAS íbúða, ásamt fjölmörgum hagaðilum sem koma að öldrunarþjónustu á einn eða annan hátt.
Fyrir stuttu opnaði nýtt vefsvæði þar sem hægt er að kynna sér hugmyndir um uppbyggingu á húsum og þjónustu fyrir aldraða . Þar er einnig hægt að koma góðum hugmyndum og tillögum á framfæri.
Sjómannadagsráð var stofnað árið 1937 og var upphaflegt markmið að halda árlegan hátíðisdag fyrir íslenska sjómenn og var fyrsti sjómannadagurinn haldinn 6. júní árið 1938. Fljótlega eftir það var hafist handa við byggingu á dvalarheimili fyrir aldraða sjómenn og var fyrsta Hrafnistuheimilið opnað 2.júní árið 1957.
Sjómannadagsráð rekur í dag átta starfsstöðvar með heimilum Hrafnistu og leiguíbúðum DAS íbúða, staðsettar í 5 sveitarfélögum.

Í Hrafnistu Laugarási er að finna hjúkrunarheimili, þjónustumiðstöð og DAS íbúðir. Þar er fyrirhugað að fjölga hjúkrunarrýmum, reisa nýtt íbúðarhús og stækka þjónustumiðstöðina. Fleiri myndir er að sjá hér.