Logo
Blaðið /
Gott fyrir sálina að mála
Steinþór Marinó Gunnarsson, málarameistari og listmálari, fagnaði 100 ára afmæli sínu í júlí síðastliðnum með því að opna listasýningu í þjónustumiðstöðinni Boðanum í Boðaþingi. Steinþór hefur málað í 90 ár og hefur ekki tölu á því hversu margar myndirnar eru orðnar. Viðfangsefni myndanna eru oft náttúran, en hann segir útivist í náttúrunni vera ein helsta ástæðan fyrir langlífinu.
Gott fyrir sálina að mála image

„Ég ákvað að opna sýningu í tilefni þess að ég átti stórafmæli,“ segir Steinþór. „Í fyrstu var ég hikandi við að opna sýningu, því ég er nú orðinn dálítið gamall og það er heilmikil vinna að ramma inn myndir og hengja upp. En mér bauðst aðstoðin svo ég sló til,“ segir hann og nefnir jafnframt að þetta sé þriðja sýningin sem hann heldur í salnum hjá Hrafnistu í Boðaþingi. 

Sjómenn eftir Steinþór.

Hugrakkur smaladrengur

Viðfangsefni myndanna hans Steinþórs er gjarnan náttúran og sjómennskan. „Ég hef alltaf verið heillaður af þessum viðfangsefnum. Ég ólst upp á Suðureyri, litlu þorpi fyrir vestan, og lék mér í fjörunni. Þar horfði ég á sjómennina á bryggjunni, bátana sigla út og inn fjörðinn og brimið skella á fjöruborðinu. Sjómaðurinn við störf hefur alltaf heillað mig og eins að mála gula stakkinn, hann er skemmtilegur. Ég fór samt aldrei á sjóinn sjálfur,“ segir Steinþór.

„Ég var sendur í sveit 6 ára gamall og fór þangað fjögur sumur í röð. Þar var ég meðal annars smaladrengur,“ heldur Steinþór áfram þegar hann rifjar upp æskuna. „Á þessum tíma var siður að senda unga krakka upp í fjöllin með kindur, en þá voru lömbin tekin frá ánum. Ég fór því einn með tuttugu og fimm kindur fram í dal og sat yfir þeim, eins og fjárhirðir í Biblíunni, með staf og hélt til í fjallakofa, sem var nú reyndar hálfgert hreysi,“ segir Steinþór og hlær. „Ég hélt af stað á hverjum morgni yfir hásumarið með nestið mitt. Ég hafði enga klukku en forystukindin kom alltaf til mín á réttum tíma, rétt um klukkan sex, og þá var tími kominn til að fara heim.“ 

Steinþór lenti í ýmsum ævintýrum á fjöllum. „Eitt sinn skall á blindaþoka og ég þurfti að leita að kindunum. Það kom einnig fyrir að ég missti þær upp í fjallið og það gat verið hættulegt að ná þeim niður. Snati hundurinn minn hjálpaði mér mikið, passaði upp á mig og hvatti mig áfram. Það var gaman að upplifa svona ævintýri í náttúrunni en líka mikið álag á ungan dreng og stundum var ég hræddur. Eftir á að hugsa var ég ansi hugaður,“ bætir hann við og segir að þetta sé lífsreynsla sem gleymist aldrei. 

Horft til Keilis.

Að mála er að búa til sögu

Steinþór hefur alla tíð sótt mikið í náttúruna og ferðast með fjölskyldunni um landið. „Það má segia að ég sé að mála minningarnar mínar en auðvitað er þar líka eitthvað sem ég bara bý til. Náttúruna hefur svo mikinn kraft og þessi kraftur veitir mér mikinn innblástur,“ segir hann og bætir við að það sé eins og eitthvað ósýnilegt afl knýji hann áfram. „Mér finnst eins og það sé einhver maður fyrir aftan mig sem ýtir mér áfram í að mála. Ég eiri ekki við að lesa bók, hef enga þolinmæði, ég bara verð að búa til eitthvað sjálfur. En að mála er að búa til sögu því hver einasta mynd segir sína sögu. 

Togarinn Júní eftir Steinþór.

Stíll myndanna hans Steinþórs er skemmtilega fjölbreyttur enda eru þær málaðar yfir langt tímabil. „Ég er alltaf með eitthvað á trönunum. Það má segja að hver mynd elti þá fyrri. Það kemur oft hugmynd að næstu mynd á meðan ég er að mála. Núna er ég meira að vinna með ýmsar stílfærslur, ég bý bara til formið þegar ég lagður af stað. Held á blýantinum eða penslinum og byrja skapa,“ segir Steinþór sem starfaði sem málarameistari í 40 ár. Starfið hafði mikil áhrif á listsköpun hans. „Um tíma málaði ég til dæmis heima hjá Gunnlaugi Scheving listmálara. Við spjölluðum mikið um list og hann hefur alla tíð verið mér mikill innblástur. Hann sýndi mér verkin sín og ég heillaðist strax af þessum sterku formum í myndbyggingunni,“ bætir Steinþór við. 

Þakkar útivistinni háan aldur

Steinþór fagnaði 100 ára afmælinu þann 18. júlí síðastliðinn og segir að það sé meðal annars nálægðinni við náttúruna að þakka að hann hafi náð þessum háa aldri. „Það er útivistin, held ég, sem skiptir mestu máli. Það jafnast ekkert á við að fara göngutúr í náttúrunni og anda að sér hreinu lofti. Góða skapið og létt lund hefur líka alltaf fylgt mér. Og svo eru það öll ferðalögin með fjölskyldunni,“ segir Steinþór og tekur fram að fjölskyldan hafi gefið sér mikla gleði í lífinu. „Síðan er ég alltaf að mála og ætla að halda því áfram. Ég bara verð að gera það, ég get ekki setið kyrr. Ég hef svo gaman af því að mála og það er gott fyrir sálina, enda leiðist mér aldrei. 

Sjómaður með þorsk.